COVID-kreppan og jafnrétti
 
covid_kreppan_top.png
 

Covid-19 faraldurinn og kreppan sem fylgir er dýpri og langvinnari en spáð var fyrir um í fyrstu. Kreppan hefur komið hvað verst niður á ferðaþjónustu og öðrum þjónustugreinum, þar sem láglaunafólk eru meðal þeirra sem taka versta skellinn. Þar má sérstaklega nefna konur, útlendinga á vinnumarkaði, konur af erlendum uppruna og ungt fólk. Þetta eru hópar sem hafa að jafnaði minna svigrúm til að takast á og bregðast við efnahagsáföllum vegna stöðu sinnar í samfélaginu og eru fyrir vikið viðkvæmari fyrir atvinnu- og tekjumissi. Slíkt er meðal annars hægt að skýra með því að konur þéna að jafnaði minna en karlar í störfum sínum, eiga minni sparnað og búa við lakara starfsöryggi. Faraldurinn og kreppan sem fylgir hafa varpað ljósi á mikilvægi öryggisnets velferðarkerfisins.

Störf sem áður voru ósýnileg eru nú talin ómissandi. Konur eru líklegri til að skipa svokölluð framlínustörf, sem oft eru láglaunastörf og umbun því ekki í samræmi við áhættuna og álag. Þau sem vinna þessi ómissandi störf uppskera ekki í takt við mikilvægi sitt í þessari kreppu. Þau sem græða á kreppunni, þ.e. halda vinnunni, auka sparnað sinn, geta lagt meira fyrir vegna samdráttar í neyslu, eru þau sem stóðu ágætlega fyrir. Þau sem fara verst út úr henni stóðu gjarnan höllum fæti fyrir. Efnahagsleg áföll faraldursins munu auka ójöfnuð nema gripið sér til sérstakra aðgerða.

Faraldurinn og kreppan munu koma til með að hafa langvarandi efnahags- og félagslegar afleiðingar, sem koma ólíkt við fólk eftir t.d. kyni, stétt og uppruna. Þær viðspyrnu- og stuðningsaðgerðir, sem farið er í til að draga úr áhrifum kreppunnar á fyrirtæki og fólk í landinu þurfa því að koma til móts við þá hópa sem hér eru nefndir með markvissum hætti. Með því að hafa jafnréttissjónarmið og aðferðafræði kynjaðra fjármála að leiðarljósi við aðgerðirnar aukast líkur verulega á að þær verði markvisst tæki gegn ójöfnuði og gagnist þeim sem helst þurfi á þeim að halda. Stjórnvöld hafa gripið til ýmissa aðgerða til að bregðast við og verða þær hér rýndar frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum með það fyrir auga að benda á hvernig til hefur tekist og hvernig hægt er að gera betur.

 
 
 
Mamma þarf líka að vinna

Covid-kreppan hefur komið hvað verst niður á ferðaþjónustu og öðrum þjónustugreinum. Umræddar atvinnugreinar eru mannaðar að mestu leyti af konum, erlendu starfsfólki og ungu fólki. Þetta eru hópar sem hafa að jafnaði minna svigrúm til að takast á og bregðast við efnahagsáföllum vegna stöðu sinnar í samfélaginu og eru fyrir vikið viðkvæmari fyrir atvinnu- og tekjumissi.

+ Atvinnuleysi

Í desember 2020 var heildar atvinnuleysi um 12%, og hlutfallið það sama meðal karla og kvenna á landsvísu. Atvinnuleysi er mest á Suðurnesjum, sérstaklega meðal kvenna en ein af hverjum fjórum konum á svæðinu eru án atvinnu. Atvinnuleysi er hlutfallslega meira meðal erlendra ríkisborgara en um fjórðungur erlendra ríkisborgara hér á landi var án atvinnu í lok desember.


Endurmenntun og færniaukandi úrræði sem beinast að því að styðja beint við og virkja þá hópa sem atvinnuleysi kemur verst niður á eru mikilvæg, en slík úrræði verða að ná til allra sem á þeim þurfa að halda. Leggja þarf ríkari áherslu á að vinna að virkni fjölbreytts hóps atvinnuleitenda, sérstaklega erlends starfsfólks.


Flest eru atvinnulaus í yngri aldurshópum en ungt fólk er gjarnan í námi eða hefur nýlokið námi, er tekjulægra en aðrir aldurshópar og á oftar ekki eigið húsnæði. Atvinnuátak til að fjölga sumarstörfum námsmanna sumarið 2020, ásamt betri efnahagslegri stöðu og mjög takmörkuðum sóttvarnaraðgerðum fram á síðsumar, skilaði því að atvinnuástand meðal námsmanna var nokkuð gott. Hins vegar hafa hertar aðgerðir leitt til takmarkaðs atvinnuframboðs seinnihluta árs 2020 sem gerir nemum erfiðara fyrir, en atvinnuþátttaka nemenda meðfram námi hefur jafnan verið mjög mikil - Stúdentaráð hefur bent á að 72% stúdenta vinna með námi til að hafa efni á að stunda nám og því auðséð hvernig efnalitlir stúdentar verða illa úti. Þrátt fyrir að greiða sama hlutfall tekna sinna og annað launafólk í atvinnuleysistryggingasjóð, hafa stúdentar ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Það getur verið til þess fallið að valda þeim miklu öryggisleysi og andlegu álagi. Vert er að benda í þessu samhengi á að meirihluti stúdenta eru konur og því ekki úr vegi að tala um kynjuð áhrif vegna þessa.


Stjórnvöld verða að gæta þess að með úrræðum sínum skilji þau enga eftir.

+ Framfærsla

Stigið var jákvætt skref þegar ákveðið var að greiða viðbótarálag á grunnbætur atvinnuleysistrygginga árið 2021, en það er gert til að koma til móts við þann stóra hóp sem er ekki á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Jafnframt voru greiðslur hækkaðar vegna framfærslu barna atvinnuleitenda, en út árið 2021 reiknast 6% viðbótarálag ofan á grunnatvinnuleysisbætur vegna framfærslu hvers barns, í stað 4% áður. Grunnatvinnuleysisbætur eru 307.430 kr. og ljóst að mörg eiga erfitt að láta enda ná saman á þeirri upphæð - gera þarf betur. Fólk í atvinnuleit er nú þegar í mjög viðkvæmri stöðu og tekjuleysið getur orðið að fátæktargildru sem erfitt er að sleppa úr. Jafnframt er stór hluti atvinnulausra af erlendum uppruna sem hefur jafnvel lítið bakland hér á landi, en lágar bætur ýta enn fremur undir jaðarsetningu þeirra.


Stjórnvöld ákváðu að framlengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur, en vegna launamunar kynjanna er það úrræði sem nýtist körlum frekar en konum. Greining á greiðslu atvinnuleysistrygginga í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 leiddi í ljós að karlar fengu tæplega 70% tekjutengdra bóta en konur rúm 30%, sem aðeins er hægt að skýra með því að laun karla eru að jafnaði hærri en laun kvenna og þar af leiðandi tekjutengingin í atvinnuleysistryggingakerfinu líka. Þetta á enn við í dag, en óleiðréttur launamunur kynjanna er enn um 15% þrátt fyrir að dregið hafi úr kynbundnum launamun hér á landi frá því að úttektin var unnin.


Hækka þarf grunnbætur atvinnuleysistrygginga og lengja bótatímabil til að koma í veg fyrir að fólk festist í fátækt.

+ Atvinnuskapandi aðgerðir stjórnvalda


Hlutastarfaleiðin/hlutabótaleiðin var sett á laggirnar í þeirri von að fyrirtæki gætu haldið starfsfólki sínu áfram í vinnu, þrátt fyrir tekjumissi vegna faraldursins og sóttvarnaaðgerða. Hlutfallslega voru jafn margir karlar og konur sem fengu greitt samkvæmt þessu úrræði í desember 2020. Sum fyrirtækjanna sem nýttu sér hlutabótaleiðina og hlutu stórar upphæðir frá hinu opinbera vegna þess, höfðu greitt hluthöfum sínum hundruði milljóna í arð árin á undan. Bent hefur verið á að stjórnvöld hefðu átt að setja strangari skilyrði til fyrirtækja vegna þessara styrkja, til að stuðla að sem bestri nýtingu opinbers fjármagns.


Allir vinna er úrræði úr fjármálakreppunni 2008 og var það endurnýtt og útvíkkað vegna COVID-kreppunnar. Endurgreiðsla virðisaukaskatts fór úr 60% í 100% frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021. Úrræðið snýr að því að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna við heimili fólks og framkvæmdir sveitarfélaga og var útvíkkað til bílaviðgerða, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða og bygginga, endurbóta og viðhalds á mannvirkjum í eigu mannúðar- og líknarfélaga, íþróttafélaga og björgunarsveita. Jafnframt nær úrræðið nú yfir endurgreiðslu VSK vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.


Þetta úrræði sem átti að færa fólki í byggingariðnaði atvinnutækifæri í fjármálakreppunni 2008, hefur nú verið útvíkkað til enn fleiri karlastétta á meðan konur eru stór hluti þeirra sem misst hafa vinnunna í þessari kreppu. Gera má ráð fyrir að langflest þeirra starfa sem skapast verði unnin af körlum enda eru ríflega 95% þeirra sem starfa við bílaviðgerðir, í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð karlar. Aftur á móti eru endurgreiðslur vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis líklegri til að skapa fleiri störf fyrir konur, en fleiri konur en karlar starfa á því sviði.


Í fjárlagafrumvarpinu er því velt upp að framkvæmdirnar geti þó haft jákvæð áhrif á jafnrétti. Annars vegar að draga úr ólaunuðum störfum við þrif og umhirðu sem eru frekar sinnt af konum en körlum. Hins vegar að útgjöld heimila, sveitarfélaga og almannaheillafélaga lækki út af úrræðinu og því hafi það jákvæð áhrif á alla, bæði konur og karla. Hér mætti þó bæta við að það eru auðvitað bara útgjöld þeirra heimila sem hafa efni á þessari þjónustu sem lækka.


Þessi kreppa er ólík þeirri síðustu að mörgu leyti. Þau sem misst hafa vinnuna í COVID-kreppunni eru að stórum hluta konur, ungar og erlendar konur, sem þetta úrræði mun að litlu sem engu leyti koma til móts við. Þrátt fyrir að á það hafi verið bent þá hefur því ekki verið sérstaklega svarað hvers vegna úrræðið var ekki útvíkkað enn frekar þannig að það næði til starfa hefðbundinna kvennastétta líkt og snyrti-, hárgeiðslu- og saumastofa svo dæmi séu nefnd.


Úrræði sem sett eru á laggirnar með það að markmiði að vera atvinnuskapandi á tímum mikils atvinnuleysis þurfa að ná til þeirra hópa sem verst hafa orðið úti vegna efnahagskreppunnar.

 
 
Fjölbreyttari fjárfestingar

Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar til viðspyrnu við Covid-19 nam tæplega 18 milljörðum kr. árið 2020, en áætlað er að stjórnvöld leggi 119 milljarða kr. í fjárfestingar til ársins 2025. Átakinu er ætlað að stuðla að arðbærum fjárfestingum sem auki eftirspurn eftir vinnuafli og framleiðslugetu hagkerfisins. Stjórnvöld stefna að því að fjárfesta verulega í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum fram til ársins 2023. Áætlanir stjórnvalda um fjárfestingu líða fyrir skort á fjölbreytni og að ná ekki til allra þeirra hópa sem á þurfa að halda þegar að kemur að atvinnusköpun fyrir hópa með mismunandi þekkingu og styrkleika.

+ Fjárfestingar í steypu

Stærsti hluti fjármagnsins í fjárfestingarátakinu eru fjárfestingar í samgöngumannvirkjum og nýbyggingum og meiri háttar endurbótaverkefni. Aðrar fjárfestingar snúa að viðhaldi og endurbótum fasteigna, orkuskiptum og upplýsingatækniverkefnum. Um 85-90% af þeirri vinnu sem skapast við átakið höfðar til karla. Mikill hluti kostnaðarins vegna slíkra fjárfestingar fer í aðföng og fjármunir því úr landi. Jafnframt fylgir slíkum framkvæmdum mikill rekstrarkostnaður til framtíðar.


Fjárfestingarátak stjórnvalda má ekki takmarkast við steypu. Ráðast þarf í frekari fjárfestingar í félags- og heilbrigðisþjónustu. Það skapar mörg störf og kostnaðurinn fer að miklu leyti í laun fólks sem skilar sér út í hagkerfið. Það er innviðafjárfesting.

+ Nýsköpun

Til að efla nýsköpun og auka margbreytnina í hagkerfinu voru veitt mótframlagslán til fjárfestinga og fjármagn sett í hina ýmsu samkeppnissjóði. Ljóst er að þessi úrræði eru líklegri til að gagnast körlum betur en konum nema sértækum aðgerðum sé beitt, en færri konur en karlar sækja um fjármagn í samkeppnissjóði og auk þess sækja konur gjarnan um lægri upphæðir. Árangurshlutfall kynjanna er yfirleitt sambærilegt.


  • Sumarúthlutun úr Tækniþróunarsjóði 2020 var á þann veg að karlar fengu 180 milljónir kr. (75%) og konur 60 milljónir kr. (25%).
  • Árið 2020 voru rúmlega 480 milljónir kr. greiddar úr Matvælasjóði, en honum er ætlað að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Stór hluti styrkjanna fór til stöndugra fyrirtækja og stofnana, en samtals var um 30% fjármagnsins til Síldarvinnslunnar og Matís ehf. Aðeins er hægt að greina umsóknir í einum af fjórum styrkjaflokkunum eftir kyni styrkhafa. Í því tilfelli voru umsækjendur þeirra 36 verkefna sem voru styrkt fyrir samtals 97 milljónir, í 42% tilvika karlar, 30% konur og 28% bæði kyn.
  • 755 milljónum kr. var varið í Stuðnings – Kríu, tímabundið stuðningsúrræði sem efla á nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Stuðnings - Kríu bárust 31 umsókn og fengu 24 félög umsókn sína samþykkta og þáðu mótframlagslán árið 2020. Umsækjendur sem fengu úthlutað voru í 42% tilvika konur og 58% karlar. Flestar umsóknir voru frá litlum félögum, og félögin eru starfandi í mjög ólíkum atvinnugreinum. Stofnendur félaganna eru 22% konur og 78% karlar. Í meira en helmingi félaganna (54%) er engin kona stjórnandi. Stjórnendur félaganna eru alls 30% konur og 70% karlar. Í þessum félögum sitja 90 manns í stjórn, þar af 22% konur og 78% karla. Í níu félögum eru engar konur í stjórn félagsins.


Skapa þarf nýsköpunartækifæri með sértækum úrræðum sem höfða til kvenfrumkvöðla, þarfa þeirra, styrkleika og sérstöðu.

+ Rannsóknir

Fjárfestingar í rannsóknum runnu að miklu leiti til Rannsóknarsjóðs og Innviðasjóðs. Vegna þessa var viðbótarúthlutun úr Rannsóknarsjóði, en meirihluti styrkja fór til karla (60%). Fyrir hvern styrk sem kona fékk fengu karlar 1,5. Úthlutunin var í takt við fyrri úthlutanir og fór 56% styrkjanna til rannsakenda í Verkfræði og náttúruvísinda þar sem karlar eru í miklum meirihluta sem nemendur og kennarar og má segja að þar ríki mjög karllægur kúltúr. Innviðasjóður er jafnframt „karllægur“ sjóður að því leyti að flestir styrkir fara til karla og karllægra fræðasviða. Konur sækja síður um en karlar, en árangurshlutfall kvenna er lægra en karla. Á árunum 2015-2018 voru á bilinu 13-33% styrkja úthlutað árlega til kvenna. 42-66% styrkja árlega fara til Verkfræði og náttúruvísinda. Flestir styrkjanna fara til aðila sem eru í efstu stöðum háskólasamfélagsins, þar sem karlar eru í meirihluta, en lítið fjármagn fer til rannsakenda sem eru í lægri og óöruggari stöðum þar sem konur eru í meirihluta.


Veita þarf fjármagn í fjölbreyttari rannsóknir og fjölga þarf styrktarmöguleikum, s.s. nýdoktorastyrki, fyrir rannsakendur í óöruggum stöðum.

+ Listir

Fjárfesting í innlendri verðmætasköpun var sett í aukaúthlutun úr launasjóða listamanna í byrjun júlí 2020. Það bárust fleiri umsóknir frá konum (54%) en körlum (44%), úthlutun til launþega var jöfn en konur fengu aðeins fleiri mánuði úthlutað en karlar (53%). Störf listamanna virðast vera kynjaskipt, en úthlutanir eftir kyni eru mjög misjafnar eftir því hvaða launasjóður er til umfjöllunar. Má þar t.d. nefna að 86% þeirra sem hlutu greiðslu úr launasjóði hönnuða voru konur, en 66% þeirra sem fengu úthlutað úr launasjóði tónskálda voru karlar.


Aukin fjárfesting í listum er líkleg til að skapa atvinnu fyrir konur til jafns við karla.

 
 
Hlúum að félagslegum innviðum

Teikn eru á lofti um niðurskurð á næstu árum og aðhaldskrafa hefur verið sett á mörg svið opinberrar þjónustu, þar sem konur starfa í meirihluta. Á þessum sömu sviðum opinberrar þjónustu hefur álag aukist gífurlega, m.a. vegna Covid-19, og þörf eftir þjónustunni ekki minnkað. Mikilvægt er að ekki sé gengið á og skorið niður þegar kemur að félagslegum innviðum.

+ Horfum til framtíðar

Niðurskurður í félags-, velferðar- og heilbrigðisþjónustu hefur mikil áhrif á viðkvæma hópa samfélagsins sem reiða sig á þessa þjónustu. Niðurskurður kemur til með að gera stöðu þeirra hópa samfélagsins sem fyrir kreppu stóðu höllum fæti, enn alvarlegri. Þörfin fyrir þjónustu félagslegra innviða verður áfram til staðar og mun við niðurskurð óhjákvæmilega færast inn á heimilin og langoftast í fang kvenna. Slíkur niðurskurður hefur áhrif á starfsfólk þess geira og þau sem þjónustuna sækja og þar með gífurleg áhrif á kynjajafnrétti.


Endurhugsa þarf hvernig samfélagi við viljum búa í áður en boðaðar eru aðgerðir um aðhald sem koma niður á opinberri velferðar- og heilbrigðisþjónustu.

+ Jafnrétti og hagvöxtur eiga samleið

Það hefur neikvæð áhrif á hagvöxt þegar að konur geta ekki tekið þátt á vinnumarkaði, og hefur sömuleiðis neikvæð áhrif á fjárhagslegt öryggi þeirra og setur þær í viðkvæma stöðu t.d. gagnvart ofbeldi og annarri misnotkun. Samkvæmt OECD má rekja allt að 20% af hagvexti á Norðurlöndunum síðustu 40 árin til aukins kynjajafnréttis á vinnumarkaði. Mikil atvinnuþátttaka kvenna hér á landi spilar þar stóran þátt en það kemur m.a. til vegna fæðingarorlofskerfisins og leikskólaþjónustu.


Hlúa þarf að félagslegum innviðum til að stuðla að atvinnuþátttöku og öryggi allra í samfélaginu.

+ Fjármögnun vinnumarkaðstengdra réttinda

Ríkisstjórnin lækkaði tryggingagjaldið tímabundið fyrir árið 2021 í því skyni að milda áhrif af þeim launahækkunum sem samið var um í Lífskjarasamningnum. Kostnaður lækkunarinnar nemur um fjórum milljörðum króna. Áhrif þessa á fjármögnun atvinnuleysistrygginga gæti haft gífurleg neikvæð jafnréttisáhrif og mögulega stuðlað að aukinni jaðarsetningu fólks sem er í viðkvæmri stöðu fyrir. Ef skorið verður niður í fæðingarorlofskerfinu kemur það til með að hafa neikvæð áhrif á stöðu kynjajafnréttis hér á landi, með tilliti til reynslunnar af skerðingum á eftirhrunsárunum. Í kjölfar efnahagshrunsins var þak á greiðslur úr fæðingarorlofssjóði lækkað sem leiddi til þess að feðrum sem kusu að nýta fæðingarorlofið fækkaði vegna mikillar skerðingar á tekjum þeirra.


Standa þarf vörð um fjármögnun vinnumarkaðstengdra réttinda til að tryggja kynjajafnrétti á vinnumarkaði.

 
 
Metum störf kvenna að verðleikum

Rannsóknir á ábyrgð kynjanna á heimilisstörfum og umönnun fjölskyldumeðlima hafa sýnt að konur taka mun meiri ábyrgð en karlar á heimilis- og umönnunarstörfum. Umönnunar- og heimilisábyrgð kvenna hefur aukist vegna Covid-19. Umönnunarbyrði er mikil á Íslandi, en oftast hvílir slík ábyrgð á herðum kvenna. Í samanburði við önnur Evrópulönd er Ísland með hæst hlutfall fólks sem veitir veikum, fötluðum eða öldruðum skyldmönnum reglulega umönnun. Þessi störf eru ólaunuð og geta verið tímafrek, og geta þannig tekið tíma frá launuðum störfum með tilheyrandi áhrifum á tekjur, starfsþrek og starfsþróun. Á Covid-tímum er ástæða til að gæta sérstaklega að því að þetta samfélagslega ójafnvægi í verkaskiptingu kynjanna ýkist ekki og hafi ekki alvarleg neikvæð áhrif á konur og karla. Vel hefur tekist til að halda skólum opnum og hefur það mikil jafnréttisáhrif.

+ Laun í sóttkví

Greiðsla launa í sóttkví er aðgerð sem er vel heppnuð, eins langt og hún nær. Með henni er komið í veg fyrir að fólk, af öllum kynjum, verði fyrir neikvæðum áhrifum af sóttvarnaraðgerðum. Þegar laun eru tryggð þá er byggt undir árangur sóttvarnaraðgerðanna, en fólk hefur minni ástæðu til að taka áhættur með að mæta til starfa og halda uppi tekjum sínum.


Aðgerðin þarf að ganga lengra til að ná til þeirra sem þurfa að fara í sóttkví vegna umönnunarábyrgðar í heimsfaraldrinum.


Vegna þjónustufalls hins opinbera við fötluð og langveik börn og ungmenni í kjölfar sóttvarnaraðgerða má ætla að foreldrar þeirra barna verði fyrir neikvæðum áhrifum þegar þau verða að vera heima hjá börnum sínum sem eiga ekki kost á annari umönnun. Laun í sóttkví ná ekki til þess hóps, né heldur til þeirra foreldra sem þurfa að halda börnum sínum heima vegna lokana í skólastofnunum eða frístundastarfi, eins og reglulega hefur komið upp. Það er undir vinnuveitanda komið hvort að laun þessa fólks eru tryggð á meðan þessar aðstæður eru uppi, þar sem aðstæður til fjarvinnu eru auðvitað ekki þær sömu fyrir alla foreldra. Sá kostnaður fellur þá alfarið á vinnuveitanda þar sem endurgreiðsluskilyrði vegna launa í sóttkví ná ekki yfir þá starfsmenn sem þurfa að vera heima hjá börnum vegna skertrar þjónustu.


Laun í sóttkví hefðu átt að ná til foreldra barna sem gátu ekki verið að heiman af þessum sökum, til að tryggja efnahagslegt öryggi þessara fjölskyldna. Til að tryggja að úrræðið stuðli að jafnrétti þarf útvíkkuð útgáfa af úrræðinu fyrir foreldra í þessari stöðu að vera einstaklingsbundið og óframseljandlegt, sbr. veikindarétt vegna barna.

+ Stuðningur við börn og umönnunaraðila

Ríkisstjórnin hefur talsvert nýtt eingreiðslur til þess að koma til móts við hópa sem stóðu höllum fæti fyrir faraldurinn. Þetta virðist frekar vera táknrænar aðgerðir frekar en raunverulegur stuðningur við viðkvæma hópa, þar sem að greiðslurnar eru lágar einskiptis-greiðslur.


Haustið 2020 var samþykkt eingreiðsla fyrir foreldra barna með gilt umönnunarmat. Þegar nánar er rýnt í skilyrði greiðslunnar verður ekki betur séð en að sú greiðsla gæti í mesta lagið numið 48.000 kr. og skilyrði sé að aðstæður (að komast ekki til vinnu) hafi þurft að vara í 15 daga hið minnsta. Óþarft er að hafa fleiri orð um hversu langt frá því þessi eingreiðsla er að mæta kostnaði af tekjutapi. Í kynningu á efnahagspakka tvö var látið að því liggja að 200 milljónir ættu að fara í að „mæta breyttum aðstæðum foreldra eða umönnunaraðila vegna langveikra eða fatlaðra barna“. Þetta hljómar eins og þetta eigi að fara beint til foreldra en virðist vera villandi því ekki verður betur séð en að raunin hafi verið að upphæðinni virðist vera varið í aðgerðir eins og sumardvöl, landshlutateymi, stuðning við fötluð börn innflytjenda og dagþjónustu fyrir fatlað fólk - sem eru verkefni góðra gjalda verð, en hafa að mestu leyti önnur áhrif á stöðu foreldra en að mæta þessum breyttu aðstæðum vegna Covid-19.


Það er aðalatriði að veita fjármagni til að reyna að jafna aðstöðumun, án þess gerist lítið. Það er þó til lítils ef fjármagnið skilar sér svo ekki þegar þess er þörf. Dæmi um þetta er styrkur til frístundaiðkunar barna sem búa á tekjulágum heimilum. Stjórnvöld veittu 600 milljónum til að jafna tækifæri barna til þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi þrátt fyrir efnahagsþrengingar, enda talið hafa mikilvægt forvarnargildi og jákvæð áhrif á lífsgæði barnanna. Þessi aðgerð átti að koma til framkvæmda sumarið 2020 en frestaðist fram til nóvember. Þá hafði upphafleg upphæð lækkað um 5.000 kr. á barn. Fjárheimild lá fyrir í sex mánuði án þess að vera nýtt og vekur furðu hverju sæti að málefnið hafi verðskuldað 600 milljónir af almannafé, en þótti þó ekki nógu brýnt til að koma því til framkvæmda fyrr en eftir dúk og disk. Hér er um sértæka aðgerð að ræða fyrir hóp sem er viðkvæmur fyrir jaðarsetningu og spyrja má hverju það sæti að hún taki svo langan tíma í framkvæmd miðað við almennar aðgerðir sem beinast að fólki óháð efnahag (sbr. barnabótaauka).


Einskiptis aðgerðir eiga á hættu að vera skammtímalausnir. Til að tryggja lífsgæði viðkvæmra hópa þarf að horfa til lengri tíma og sérstaklega koma í veg fyrir langtímaáhrif tekjumissis.

 
 
Aðgerðir þurfa að vera sértækar og markvissar

Margar þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í kjölfar efnahagsáhrifa Covid-19 heimsfaraldursins, og hafa hér verið nefndar, miða að því að örva hagkerfið og auka peningamagn í umferð. Þetta er sambærilegt viðbragð og beitt var í fjármálakreppunni 2008. Hér ber að nefna fjárfestingaátak, möguleika á úttekt séreignarsparnaðar, hækkun endurgreiðsluhlutfalls VSK á hina ýmsu þjónustu og ferðagjöfina. Þetta eru dæmigerð kreppuviðbrögð. Covid-kreppan er þó allt annað en dæmigerð kreppa. Hér á landi eru það að stórum hluta þjónustu og ferðaþjónustufyrirtæki sem verða illa úti, heilu atvinnugreinarnar sem verða fyrir algjöru tekjustoppi og starfsfólk þeirra missa vinnuna. Þetta starfsfólk eru til að mynda konur og fólk af erlendum uppruna á Suðurnesjum og Suðurlandi, nemar sem missa aukavinnu í þjónustustörfum og lágtekjufólk í ferðaþjónustu.

Sú leið er þó farin að reyna koma peningum til fólks og fyrirtækja í gegnum markaðinn og í gegnum bankakerfið með almennum aðgerðum en vegna áhrifa heimsfaraldurs og sóttvarnaraðgerða komast þessir peningar ekki endilega í hendur þeirra sem höllustum fæti standa. Hér eru nokkrar aðgerðir sem dæmi:

+ Úttekt séreignasparnaðar

Úttektarheimild séreignarsparnaðar er aðgerð sem hugsuð er til að auðvelda einstaklingum og heimilum að standa af sér þær aðstæður sem sköpuðust vegna heimsfaraldursins. Markmiðið er að gera fólki kleift að nýta eigin sparnað til að mæta djúpri en tímabundinni efnahagslægð og að nota sparnaðinn til að auka útgjöld sem eykur eftirspurn í efnahagslífinu. Úttekt valfrjáls séreignarsparnaðar hentar fremur þeim sem eru stöðugt á vinnumarkaði, í fullri vinnu og með meðaltekjur eða hærri. Konur eru líklegri til að vera í hlutastarfi, hafa almennt lægri tekjur og taka meiri tíma frá launaðri vinnu vegna þyngri umönnunarbyrði. Það er því líklegt að konur eigi almennt lægri séreignasparnaði en karlar. Það hefur verið markmið hins opinbera að auka vægi séreignasparnaðarins og því ákveðin mótsögn í því að hvetja fólk til að taka lífeyrinn út, sem muni hafa áhrif á tekjur fólks á efri árum.


Hér væri nær að hið opinbera færi í sértækar aðgerðir til að koma til móts við fólk t.d. hækkun atvinnuleysisbóta og veita námsmönnum rétt til atvinnuleysisbóta fremur en að hvetja fólk til að ganga á framtíðar lífeyri sinn - ef þau þá eiga hann til.

+ Allir vinna

„Allir vinna“ er endurnýting á úrræði úr síðustu efnahagskreppu þar sem markmiðið er að örva hagkerfið með því að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af ýmissi þjónustu. Hér er fólk hvatt til að nýta sér áðurnefnda þjónustu sem er af stærstum hluta unnin af körlum og er ólíkleg til að skapa störf fyrir þann hóp sem misstu vinnuna vegna Covid-19 heimsfaraldursins og reynist þeim best sem enn hafa pening á milli handanna.

+ Ferðagjöfin

Ferðagjöfin er aðgerð sem átti að virkja þær greinar sem urðu fyrir tekjustoppi vegna heimsfaraldurs en nú er ljóst að stærstur hluti þessa fjármagns endaði í höndum fyrirtækja sem urðu ekki fyrir verulegum beinum áhrifum af heimsfaraldrinum og standa nú jafnvel sterkari en þau gerðu áður, s.s KFC, Olís og N1. Aukið peningamagn í umferð skilaði sér því ekki þangað sem markaðsbresturinn átti sér stað. Staðan er enn sú að heilu atvinnugreinarnar liggja niðri - atvinnugreinar sem veittu fjölda fólks atvinnu sem nú er mikilvægt að virkja og koma til móts við.

+ Barnabótaauki

Barnabótaauki er almenn aðgerð og skilaði sér til allra framfærenda barna, burtséð hvort þeir þurftu á stuðningnum að halda. Þannig var vikið frá því kerfi sem er við líði í íslenska barnabótakerfinu, þar sem þau tekjulægstu fá barnabæturnar en ekki þau tekjuhærri. Ekki er ætlunin að ræða hér við hvaða tekjumörk fólk ætti að fá barnabætur. Það er þó ljóst að t.d. í fjölskyldum þar sem eru tveir foreldrar sem hafa haldið atvinnu og orðið fyrir lítilli tekjuskerðingu, getur ekki verið brýn þörf fyrir stuðninginn sem um ræðir, eða 30.000 kr. eingreiðslu pr. barn. Fjármagninu hlýtur því að vera betur varið í stuðning við þau sem meira þurfa á honum að halda.


Aðgerðir verða að vera sértækari þannig að þær nái til þeirra sem þurfa á þeim að halda. Þær þurfa líka að vera markvissari til að þær nái þeim markmiðum sem þeim voru ætluð t.d. að styðja atvinnugreinar þar sem varð markaðsbrestur en ekki styðja við atvinnugreinar sem þurfa ekki á stuðningi að halda. Það er besta nýtingin á almannafé.

 
 
Stjórnvöld þurfa að stuðla að auknu jafnrétti og réttlæti

Jafnrétti kynjanna eins og við þekkjum það í dag er ekki sjálfgefið, það er ekki óhjákvæmileg þróun í samfélagi heldur þarf að taka meðvitaðar pólitískar ákvarðanir og framfylgja þeim til að stuðla að áframhaldandi auknu jafnrétti. Bakslag í jafnrétti kynjanna víða um heim, t.d. Í Bandaríkjunum, Ungverjalandi og Póllandi ætti að vera okkur innblástur um að sofna ekki á verðinum.

Heimsfaraldur Covid-19 sýndi okkur hversu sveigjanleg samfélög eru og hversu hratt er hægt að bregðast við þegar hætta steðjar að. Bregðast þarf við af svipuðum þunga við þeim heimsfaraldri, sem hefur geisað lengi, þ.e. ofbeldi gegn konum sem er langvinnur heimsfaraldur sem skilur eftir sig þjáningu og sorg hvar sem hann ber niður. Stjórnvöld hafa gert ýmislegt til að vekja athygli á þeim faraldri í kjölfar Covid-19, en stíga þarf enn fastar til jarðar og vinna að úrbótum innviða samfélagsins, s.s. virkni réttarvörslukerfisins.

Árangurinn í jafnréttisbaráttunni hérlendis hefur náðst vegna réttlætisbaráttu jaðarsettra hópa og vegna hennar hafa stjórnvöld á Íslandi tekið meðvituð skref í átt að því að stuðla að jafnrétti (t.d. fæðingarorlof, leikskólaþjónusta, stuðningur við vinnu gegn kynbundnu ofbeldi). Þessari vinnu þarf að halda áfram til að vinna og stuðla að auknu jafnrétti. Þá þurfa allir að vera með og þá er sérstaklega mikilvægt að við hugum að jafnrétti í kreppuviðbrögðum og við gerð fjárlaga.


Með þessari greiningu vilja Femínísk fjármál ítreka að stjórnvöld þurfa að tryggja að aðgerðir stuðli að auknu jafnrétti og réttlæti í íslensku samfélagi!

 
 

 
 

Greining þessi á efnahagsaðgerðum stjórnvalda frá kynja- og jafnréttissjónarmiði var unnin á tímabilinu ágúst 2020 - febrúar 2021. Greiningin nær til aðgerða sem kynntar voru á árinu 2020. 

Greininguna leiddu fyrir hönd félagsins Femínísk fjármál: Finnborg Salome Steinþórsdóttir, Freyja Barkardóttir, Sigríður Finnbogadóttir, Steinunn Bragadóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir. 

Verkefnið er styrkt af Jafnréttissjóði Íslands árið 2020.

 
jafnrettissjodur.png