+ Atvinnuleysi
Í desember 2020 var heildar atvinnuleysi um 12%, og hlutfallið það sama meðal karla og kvenna á landsvísu. Atvinnuleysi er mest á Suðurnesjum, sérstaklega meðal kvenna en ein af hverjum fjórum konum á svæðinu eru án atvinnu. Atvinnuleysi er hlutfallslega meira meðal erlendra ríkisborgara en um fjórðungur erlendra ríkisborgara hér á landi var án atvinnu í lok desember.
Endurmenntun og færniaukandi úrræði sem beinast að því að styðja beint við og virkja þá hópa sem atvinnuleysi kemur verst niður á eru mikilvæg, en slík úrræði verða að ná til allra sem á þeim þurfa að halda. Leggja þarf ríkari áherslu á að vinna að virkni fjölbreytts hóps atvinnuleitenda, sérstaklega erlends starfsfólks.
Flest eru atvinnulaus í yngri aldurshópum en ungt fólk er gjarnan í námi eða hefur nýlokið námi, er tekjulægra en aðrir aldurshópar og á oftar ekki eigið húsnæði. Atvinnuátak til að fjölga sumarstörfum námsmanna sumarið 2020, ásamt betri efnahagslegri stöðu og mjög takmörkuðum sóttvarnaraðgerðum fram á síðsumar, skilaði því að atvinnuástand meðal námsmanna var nokkuð gott. Hins vegar hafa hertar aðgerðir leitt til takmarkaðs atvinnuframboðs seinnihluta árs 2020 sem gerir nemum erfiðara fyrir, en atvinnuþátttaka nemenda meðfram námi hefur jafnan verið mjög mikil - Stúdentaráð hefur bent á að 72% stúdenta vinna með námi til að hafa efni á að stunda nám og því auðséð hvernig efnalitlir stúdentar verða illa úti. Þrátt fyrir að greiða sama hlutfall tekna sinna og annað launafólk í atvinnuleysistryggingasjóð, hafa stúdentar ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Það getur verið til þess fallið að valda þeim miklu öryggisleysi og andlegu álagi. Vert er að benda í þessu samhengi á að meirihluti stúdenta eru konur og því ekki úr vegi að tala um kynjuð áhrif vegna þessa.
Stjórnvöld verða að gæta þess að með úrræðum sínum skilji þau enga eftir.
+ Framfærsla
Stigið var jákvætt skref þegar ákveðið var að greiða viðbótarálag á grunnbætur atvinnuleysistrygginga árið 2021, en það er gert til að koma til móts við þann stóra hóp sem er ekki á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Jafnframt voru greiðslur hækkaðar vegna framfærslu barna atvinnuleitenda, en út árið 2021 reiknast 6% viðbótarálag ofan á grunnatvinnuleysisbætur vegna framfærslu hvers barns, í stað 4% áður. Grunnatvinnuleysisbætur eru 307.430 kr. og ljóst að mörg eiga erfitt að láta enda ná saman á þeirri upphæð - gera þarf betur. Fólk í atvinnuleit er nú þegar í mjög viðkvæmri stöðu og tekjuleysið getur orðið að fátæktargildru sem erfitt er að sleppa úr. Jafnframt er stór hluti atvinnulausra af erlendum uppruna sem hefur jafnvel lítið bakland hér á landi, en lágar bætur ýta enn fremur undir jaðarsetningu þeirra.
Stjórnvöld ákváðu að framlengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur, en vegna launamunar kynjanna er það úrræði sem nýtist körlum frekar en konum. Greining á greiðslu atvinnuleysistrygginga í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 leiddi í ljós að karlar fengu tæplega 70% tekjutengdra bóta en konur rúm 30%, sem aðeins er hægt að skýra með því að laun karla eru að jafnaði hærri en laun kvenna og þar af leiðandi tekjutengingin í atvinnuleysistryggingakerfinu líka. Þetta á enn við í dag, en óleiðréttur launamunur kynjanna er enn um 15% þrátt fyrir að dregið hafi úr kynbundnum launamun hér á landi frá því að úttektin var unnin.
Hækka þarf grunnbætur atvinnuleysistrygginga og lengja bótatímabil til að koma í veg fyrir að fólk festist í fátækt.
+ Atvinnuskapandi aðgerðir stjórnvalda
Hlutastarfaleiðin/hlutabótaleiðin var sett á laggirnar í þeirri von að fyrirtæki gætu haldið starfsfólki sínu áfram í vinnu, þrátt fyrir tekjumissi vegna faraldursins og sóttvarnaaðgerða. Hlutfallslega voru jafn margir karlar og konur sem fengu greitt samkvæmt þessu úrræði í desember 2020. Sum fyrirtækjanna sem nýttu sér hlutabótaleiðina og hlutu stórar upphæðir frá hinu opinbera vegna þess, höfðu greitt hluthöfum sínum hundruði milljóna í arð árin á undan. Bent hefur verið á að stjórnvöld hefðu átt að setja strangari skilyrði til fyrirtækja vegna þessara styrkja, til að stuðla að sem bestri nýtingu opinbers fjármagns.
Allir vinna er úrræði úr fjármálakreppunni 2008 og var það endurnýtt og útvíkkað vegna COVID-kreppunnar. Endurgreiðsla virðisaukaskatts fór úr 60% í 100% frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021. Úrræðið snýr að því að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna við heimili fólks og framkvæmdir sveitarfélaga og var útvíkkað til bílaviðgerða, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða og bygginga, endurbóta og viðhalds á mannvirkjum í eigu mannúðar- og líknarfélaga, íþróttafélaga og björgunarsveita. Jafnframt nær úrræðið nú yfir endurgreiðslu VSK vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
Þetta úrræði sem átti að færa fólki í byggingariðnaði atvinnutækifæri í fjármálakreppunni 2008, hefur nú verið útvíkkað til enn fleiri karlastétta á meðan konur eru stór hluti þeirra sem misst hafa vinnunna í þessari kreppu. Gera má ráð fyrir að langflest þeirra starfa sem skapast verði unnin af körlum enda eru ríflega 95% þeirra sem starfa við bílaviðgerðir, í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð karlar. Aftur á móti eru endurgreiðslur vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis líklegri til að skapa fleiri störf fyrir konur, en fleiri konur en karlar starfa á því sviði.
Í fjárlagafrumvarpinu er því velt upp að framkvæmdirnar geti þó haft jákvæð áhrif á jafnrétti. Annars vegar að draga úr ólaunuðum störfum við þrif og umhirðu sem eru frekar sinnt af konum en körlum. Hins vegar að útgjöld heimila, sveitarfélaga og almannaheillafélaga lækki út af úrræðinu og því hafi það jákvæð áhrif á alla, bæði konur og karla. Hér mætti þó bæta við að það eru auðvitað bara útgjöld þeirra heimila sem hafa efni á þessari þjónustu sem lækka.
Þessi kreppa er ólík þeirri síðustu að mörgu leyti. Þau sem misst hafa vinnuna í COVID-kreppunni eru að stórum hluta konur, ungar og erlendar konur, sem þetta úrræði mun að litlu sem engu leyti koma til móts við. Þrátt fyrir að á það hafi verið bent þá hefur því ekki verið sérstaklega svarað hvers vegna úrræðið var ekki útvíkkað enn frekar þannig að það næði til starfa hefðbundinna kvennastétta líkt og snyrti-, hárgeiðslu- og saumastofa svo dæmi séu nefnd.
Úrræði sem sett eru á laggirnar með það að markmiði að vera atvinnuskapandi á tímum mikils atvinnuleysis þurfa að ná til þeirra hópa sem verst hafa orðið úti vegna efnahagskreppunnar.