Ný stjórn kjörin á aðalfundi Femínískra fjármála
Aðalfundur félagsins fór fram í gær á Bókasamlaginu.
Ársskýrsla félagsins fyrir árið 2022 var lögð fram og samþykkt sem og ársreikningur. Á árinu 2022 sendi félagið frá sér þrjár umsagnir til Alþingis, um fjármálaáætlun, frumvarp til fjárlaga og sveigjanlega tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi. Félagið lagði áherslu á mikilvægi þess að greiningar á jafnréttisáhrifum hafi bein áhrif á ráðstöfun fjármuna, verklag, áherslur og viðmið, enda eru greiningar til lítils ef þær hafa ekki áhrif á forgangsröðun og aðgerðir. Þá tók félagið þátt í samfélagsumræðu, m.a. með greinarskrifum. Stjórnarmeðlimir skrifuðu grein í ársrit Kvenréttindafélagsins um virðismat kvennastarfa og í tilefni kvennafrídagsins birtist grein eftir stjórnarmeðlimi um kynbundið launamisrétti í Kjarnanum. Þá ræddi Finnborg S. Steinþórsdóttir um bleika skatta og túrvörur í morgunútvarpi rásar 2. Í ársskýrslunni er að finna ítarlegri umfjöllun um starfsemina.
Á fundinum lagði stjórn fram breytingu á 5. gr. laga félagsins þar sem lagt er til að fjölga stjórnar og varastjórnarmeðlimum úr þremur í fimm. Tillagan var samþykkt einhljóma. Í kjölfarið var kosið í stjórn og varastjórn. Kosningu í stjórn hlutu Auður Inga Rúnarsdóttir, Finnborg S. Steinþórsdóttir, Sara Stef Hildardóttir, Steinunn Rögnvaldsdóttir og Steinunn Bragadóttir. Í varastjórn voru kjörnar þær Sigríður Finnbogadóttir, Freyja Barkardóttir, Guðrún Svavarsdóttir og Steinunn Júlía Rögnvaldsdóttir. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar er áætlaður í janúar 2024.
Félagið þakkar fyrir áhugann og stuðninginn sem við höfum fundið fyrir, og munum við halda áfram að vinna að því að efla þekkingu á kynjuðum fjármálum og veita stjórnvöldum aðhald!