Umsögn Femínískra fjármála um frumvarp til fjárlaga 2025
Femínísk fjármál skiluðu inn umsögn við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2025.
Í umsögninni bendum við á umbótatækifæri þegar kemur að framkvæmd kynjaðrar fjárlagagerðar, eins og að dýpka greiningar og ítrekum mikilvægi þess að greiningar liggi fyrir áður en ákvarðanir eru teknar.
Mikilvægt er að ná niður verðbólgu og vöxtum en í frumvarpinu skortir skýrar aðgerðir. Tekjulægri einstaklingar geta síður varið sig gegn neikvæðum áhrifum verðbólgu og því er mikilvægt að styrkja tilfærslukerfin. Bendum við á þau tækifæri sem stjórnvöld verða af til aukinnar tekjuöflunar t.d. aukinnar gjaldtöku í fiskeldi og sjávarútvegi og hækkun skatta á fjármagnstekjur.
Félagið fagnar hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi, en ítrekar jafnframt fyrri afstöðu sína að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem samsvara lágmarkslaunum ættu að vera óskertar og að greiðslur fæðingarstyrks námsmanna og til fólks sem staðið hefur utan vinnumarkaðar, verði endurskoðaðar og hækkaðar.
Þrátt fyrir að ekki sé sett aðhaldskrafa á heilbrigðis- og öldrunarþjónustu þá mun slíkt ekki leiðrétta þá vanfjármögnun sem hefur átt sér stað í heilbrigðiskerfinu síðastliðinn aldarfjórðung og þann aukna þunga á kerfinu vegna fólksfjölgunar og þeirra þúsunda ferðamanna sem þurfa á þjónustu að halda. Þegar viðunandi þjónusta er ekki í boði, þá færist umönnunarábyrgðin yfir á heimilin og oftast á herðar kvenna. Femínísk fjármál ítreka fyrri kröfur sínar um verulega bættar fjárveitingar til að leysa mannekluvanda, álag og aðbúnað sem myndast hefur í heilbrigðiskerfinu á síðustu árum. Skynsamlegt væri fyrir stjórnvöld að fjárfesta í aðgerðum sem geta komið í veg fyrir brotthvarf starfsfólks, ekki síst kvenna, en mönnun er forsenda þess að hægt sé að veita örugga og skilvirka heilbrigðisþjónustu.
Síðast en ekki síst, ítrekar félagið að Ísland ber pólitískar og siðferðislegar skyldur sem ábyrg þjóð í alþjóðasamfélaginu á tímum átaka og hamfarahlýnunar. Í því samhengi má m.a. nefna aðgerðir Ísraelska ríkisins á Gaza í Palestínu, en á einu ári hafa að minnsta kosti 41 þúsund manns verið drepin, þar af 70% konur og börn, vegna linnulausra árása og aðgerða ísraelska hersins sem með stuðningi og aðgerðaleysi vestrænna stjórnvalda eins og Íslands, sækja nú á Vesturbakkann og út fyrir landamæri Palestínu. Óhjákvæmilega mun fólk í þessari stöðu þurfa alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum. Ef Ísland vill fækka fjölda umsókna um alþjóðlega vernd væri nærtækara að beina spjótum að rót vandans, þ.e. ástæðum þess að fólk þurfi að leggja á flótta. Í tilviki Palestínu geta íslensk stjórnvöld átt þátt í því að binda enda á þjóðarmorð, m.a. með því að rjúfa öll tengsl við Ísrael, beita efnahagslegum og viðskiptalegum refsiaðgerðum og styðja málsókn Suður-Afríku fyrir Alþjóðadómstólnum.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér