Covid-kreppan og jafnrétti
Í dag hefst vitundarvakning Femínísk fjármála um áhrif efnahagslegra ákvarðana stjórnvalda í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 á stöðu kynjanna í samfélaginu. Með vitundarvakningunni vill félagið vekja fólk til umhugsunar um skiptingu efnahagslegra gæða og skapa ákall eftir að stjórnvöld tryggi að aðgerðir stuðli að auknu jafnrétti og réttlæti í íslensku samfélagi.
Efnahags- og félagslegar afleiðingar Covid-19 faraldursins koma ólíkt við fólk. Kreppan hefur komið hvað verst niður á ferðaþjónustu og öðrum þjónustugreinum, þar sem láglaunafólk eru meðal þeirra sem taka versta skellinn. Þar má sérstaklega nefna konur, útlendinga á vinnumarkaði og ungt fólk. Þetta eru hópar sem hafa að jafnaði minna svigrúm til að takast á og bregðast við efnahagsáföllum vegna stöðu sinnar í samfélaginu og eru fyrir vikið viðkvæmari fyrir atvinnu- og tekjumissi. Atvinnuskapandi aðgerðir hafa ekki náð nægilega til þessara hópa og þurfa þau, sem hafa rétt á þeim, að reiða sig á lágar atvinnuleysisbætur. Ójöfnuður mun aukast nema gripið sé til sérstakra aðgerða.
Störf sem áður voru ósýnileg eru nú talin ómissandi. Konur eru líklegri til að vinna svokölluð framlínustörf, sem oft eru láglaunastörf. Þau sem vinna þessi ómissandi störf uppskera ekki í takt við mikilvægi sitt í þessari kreppu. Á sama tíma eru teikn á lofti um að næst á dagskrá sé niðurskurður í útgjöldum hins opinbera og aðhaldskrafa sett á flest svið opinberrar þjónustu. Slíkur niðurskurður hefur áhrif á starfsfólk þess geira, þau sem þjónustuna sækja og þar með gífurleg áhrif á kynjajafnrétti. Þörfin fyrir þjónustuna verður áfram til staðar og mun við niðurskurð óhjákvæmilega færast inn á heimilin og langoftast í fang kvenna. Það er þörf á að hlúa að félagslegum innviðum en skera þá ekki niður.
Með verkefninu viljum við hvetja stjórnvöld til að hafa jafnréttissjónarmið og aðferðafræði kynjaðra fjármála að leiðarljósi við aðgerðir sínar, en þá aukast verulega líkur á að þær verði markvisst tæki gegn ójöfnuði og gagnist þeim sem helst þurfi á þeim að halda.
Vitundarvakningin fer fram á samfélagsmiðlum Femínískra fjármála: Instagram, Twitter og Facebook.
Verkefnið er styrkt af Jafnréttissjóði Íslands. Frekari upplýsingar um niðurstöður verkefnið er að finna undir Covid-Kreppan.