Femínísk fjármál á Kynjaþingi 2023

Kynjaþing var haldið í fimmta sinn laugardaginn 13. maí og lét félagið sig ekki vanta. Femínísk fjármál stóðu fyrir málstofu sem bar heitið Hvað eru stjórnvöld að drolla? Aðgerðir og aðgerðarleysi sem viðheldur kynjamisrétti. Á málstofunni tóku félagskonur stöðuna á aðgerðum og aðgerðaleysi stjórnvalda þegar kemur að því að tryggja jafnrétti í gegnum sanngjarna úthlutun fjármagns og almannagæða. Farið var yfir gagnrýni félagsins á ákvarðanir stjórnvalda í efnahagsmálum, og beindum við sjónum okkar m.a. að kynjuðu verðmætamati, aðbúnaði og launum kvennastétta, umönnunarbilinu, ólaunaðri vinnu kvenna, karlægrar slagsíðu í fjárfestingum og nýsköpun og hvernig þessar ákvarðanir skapa áhættu fyrir ríkissjóð. Málstofan var vel sótt og þakkar félagið öllum þeim sem mættu, sem og skipuleggjum Kynjaþings sem var frábært í alla staði.