Umsögn félagsins um fjármálaáætlun 2024-2028

Femínísk fjármál sendu inn umsögn vegna fjármálaáætlunar fyrir árin 2024-2028. Í umsögninni bendum við á að í frumvarpinu ber á ákveðinni aftengingu milli greininga á áhrif á jafnrétti og þeim markmiðum og aðgerðum sem þar eru sett fram. Félagið kallar eftir því að stjórnvöld setji fram í fjármálaáætlun fjölþættar aðgerðir til að bregðast við þeim áskorunum sem til staðar eru í jafnréttismálum, eins og t.d. kynbundið launamisrétti, kynskiptur vinnumarkaður, ójöfn umönnunarábyrgð kynjanna og heilsubrestur kvenna.

Femínísk fjármál fagna störfum aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, sem skipaður var haustið 2021 og starfar til ársloka 2023, en á sama tíma lýsir félagið yfir áhyggjum sínum um fjármögnun þeirra aðgerða sem óhjákvæmilegt mun þurfa að ráðast í ef leiðrétta á virðismat kvennastarfa. Femínísk fjármál hefðu viljað sjá þess ítarlegri merki í fjármálaáætlun að stjórnvöld undirbúi þá aðgerð sem framundan er, með tilliti til tekjuöflunar – en fyrirhyggjuleysið skapar kerfislæga áhættu fyrir ríkissjóð komi til afturvirkra launaleiðréttinga.

Áherslur stjórnvalda varðandi stuðningsumhverfi nýsköpunar sem birtast í áætluninni eru líklegar til að viðhalda ójafnri stöðu kynjanna á málefnasviðinu. Félagið bendir stjórnvöldum á að ef vilji er til að auka margbreytni hagkerfisins og byggja fjölbreyttari stoðir undir íslenskt atvinnulíf og mynda þannig grundvöll efnahagslegrar velgengni, þá þurfa áætlanir um auknar fjárfestingar í nýsköpun að byggja á kynja- og jafnréttissjónarmiðum.

Félagskonur hafa áhyggjur af ástandinu í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og hvetjum stjórnvöld til að bæta í fjárveitingar til að leysa mannekluvanda, álag og aðbúnað í heilbrigðiskerfinu, en mönnun heilbrigðiskerfisins er forenda þess að hægt sé að veita örugga og skilvirka þjónustu. Í umsögninni bendum við einnig á á mikilvægi þess að styrkja tilfærslukerfi stjórnvalda til að styðja við þá hópa sem síst geta mætt áhrifum hækkandi verðbólgu, og bendum á ónýtta möguleika til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, svo sem hvalrekaskatti og hækkun skatta á fjármagnstekjur.

Stjórnarkonurnar Auður og Steinunn fylgdu umsögninni eftir á fundi hjá fjárlaganefnd þann 12. maí 2023. Þar var m.a. rætt um kynjamun í nýsköpun, greiðslur í fæðingarorlofi og margt fleira mikilvægt. Við hvetjum stjórnvöld til að grípa til aðgerða til að stuðla að jafnrétti og jöfnuði með kynjaðri fjárlagagerð!

Umsögina í heild sinni má lesa hér.