Kvennafrídagurinn 24. október

Það er óásættanlegt hve hægt gengur að uppræta kynbundið launamisrétti. Þetta kynbundna launamisrétti má að mestu leyti rekja til kynbundinnar skiptingar í störf og atvinnugreinar

Í október 1975 gengu konur út, en síðustu misseri höfum við líka séð konur ganga út úr störfum, t.d. í heilbrigðiskerfinu - og ekki koma aftur. Það gengur ekki að fjárfesta í fagmenntun en hlúa svo illa að starfsfólki í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu að konur sem þar starfa treysta sér ekki til að sinna störfum vegna starfsaðstæðna, líkamlegs og andlegs álags og streitu.

Eins er óásættanlegt hve hægt gengur að uppræta aðrar meinsemdir eins og kynbundið ofbeldi, ójafna umönnunarábyrgð kynjanna og heilsubrest kvenna tengdan sérstöku álagi í starfi og einkalífi, sem og kynjaðri hlutdrægni í heilbrigðiskerfinu þar sem ákveðnir sjúkdómar kvenna mæta algerum afgangi.

Stjórnvöld verða að taka þessi verkefni alvarlega og eitt af því sem þarf að gera ekki seinna en í gær, er að ráðast í aðgerðir til að leiðrétta verðmætamat kvennastarfa. Atvinnurekendur verða að hætta að veita sjálfum sér afslátt við launasetningu kvenna eins og viðgengist hefur áratugum saman. 

Við í félaginu Femínísk fjármál höfum áhyggjur af fjármögnun þeirra aðgerða sem óhjákvæmilegt mun verða að ráðast í ef leiðrétta á virðismat kvennastarfa. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 boðar ríkisstjórnin í reynd niðurskurð næstu árin. Stjórnvöld verða að taka verkefnið alvarlega, beita forgangsröðun og sanngjarnri tekjuöflun til að spara sig ekki til tjóns í jafnréttis- og velferðarmálum. 

Grein okkar Kynbundið launamisrétti: Að spara til tjóns í jafnréttis- og velferðarmálum birtist í Kjarnanum í dag í tilefni af Kvennafrídeginum.

Femínísk fjármál