Umsögn Femínískra fjármála um frumvarp til fjárlaga 2023

Femínísk fjármál sendu inn umsögn vegna frumvarps til fjárlaga 2023. Í umsögninni bendum við á mikilvægi þess að stjórnvöld beiti sér fyrir því að fleiri aðgerðir í fjárlögum stuðli að auknu jafnrétti og færri aðgerðir viðhaldi óbreyttu ástandi. Lítið ber á aðgerðum í frumvarpinu til að bregðast við helstu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í jafnréttismálum eins og launamisrétti, kynskiptur vinnumarkaður, ójöfn umönnunarábyrgð kynjanna og heilsubrestur kvenna.

Félagið lýsir yfir áhyggjum sínum um fjármögnun aðgerða til leiðrétta virðismat kvennastarfa, en lítil merki eru í frumvarpinu um að stjórnvöld séu að undirbúa þá aðgerð sem framundan er, með tilliti til tekjuöflunar. Þar bendum við á tekjuöflunarmöguleika sem leiðtogar tveggja ríkisstjórnarflokka hafa talað fyrir svo sem hvalrekaskatt, hækkun veiðigjalda og hækkun skatta á fjármagnstekjur.

Þá vekjum við athygli á aðbúnaði og álagi sem margar kvennastéttir búa við, t.d. á Landspítalanum, en bæta verður í fjárveitingar til að leysa manneklu og álag sem myndast hefur í heilbrigðiskerfinu á síðustu árum. Þrátt fyrir að slíkar aðgerðir séu kostnaðarsamar þá munu þær ekki aðeins leiða til jákvæðra breytinga fyrir stórar kvennastéttir, heldur til lengri tíma einnig leiða til jákvæðra efnahagslegra áhrifa, s.s. aukinna tekna ríkissjóðs vegna aukinnar atvinnuþátttöku og minni útgjöld vegna almannatrygginga og heilbrigðisþjónustu

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Femínísk fjármál