Umsögn Femínískra fjármála um fjármálaáætlun 2022-2026

Fulltrúar Femínískra fjármála áttu ágætan fund með fjárlaganefnd þann 29. apríl sl. til að fylgja eftir umsögn sinni um fjármálaáætlun 2022-2026. Í umsögn félagsins, sem lesa má hér, er því fagnað að stjórnvöld hafi ákveðið að gefa út leiðarvísi þar sem kortlögð eru kynja- og jafnréttissjónarmið sem hafa þarf í huga við ákvarðanir um aðgerðir og viðbrögð við efnahagsþrengingum. Jafnframt fagnar félagið yfirlýsingum um þróun verklags til að tryggja að tekið sé mið af kynjasjónarmiðum við mótun stefnu og aðgerða, og að upplýsingar um áhrif ákvarðana á jafnrétti kynjanna liggi ávallt fyrir við ákvarðanatöku. 

Félagið brýnir stjórnvöld til að ljúka gerð við leiðarvísinn og verklagið sem fyrst en kynjaslagsíða hefur hingað til,  líkt og fram hefur komið í greiningum félagsins, verið mikil í aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs Covid-19. Í umsögninni bendir félagið enn og aftur á að það verður að gera betur þegar kemur að því að grípa öll þau sem hafa upplifað að faraldurinn kippir undan þeim fótunum og stemma stigu við auknum ójöfnuði.

Þá bendir félagið á að verulega skortir upp á varðandi að kynja- og jafnréttissjónarmið séu tengd við stefnumörkun málefnasviðanna til næstu fimm ára. Ef stjórnvöldum er alvara um að vinna að jafnrétti kynjanna, þá getur fjármálaáætlun verið eitt skilvirkasta verkfærið til að ná árangri. Félagið hvetur stjórnvöld til að sýna þann metnað að beita því verkfæri á enn markvissari hátt.